Segulstormur (2025)

Tónverkið Segulstormur snýst um tilviljanakennda hegðun yfirborðs sólarinnar, en sólgos valda segulstormum sem hafa ýmis áhrif á jörðina og efsta lag lofthjúpsins, jónahvolfið. Áhrifin birtast okkur oftast sem norðurljós, sem dansa tilviljanakennt yfir himininn. Eðli óreiðunnar í þessu samspili jarðar og sólar er túlkað með grafískri nótnaskrift og nýstárlegum tónmyndunum, en í verkinu er einnig leikið á hljóðgervil sem breytir upptökum NASA úr sólgosum yfir í hljóð. Verkið er í þremur þáttum, I. Sólgos, II. Jónahvolf og III. Stjörnuhrap.

Segulstormur er samið fyrir Tríó sól en tríóið skipa Emma Garðarsdóttir fiðluleikari, Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir fiðluleikari og Þórhildur Magnúsdóttir víóluleikari. Verkið var frumflutt á tónlistarhátíðinni State of the Art þann 8. október 2025 í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar við Öskjuhlíð. Hljóðbrot úr verkinu er hér að neðan.

Myndir: SOTA / Ingibjörg Friðriksdóttir