FLUG / VINDUR

Þegar flugvél hefur sig til flugs fara í gang þaulæfðir verkferlar þar sem flugmenn, flugumferðarstjórar, sjálfstýringar og fjarskiptakerfi vinna sem eitt að því einu markmiði að koma flugvélinni á loft. Öll þessi fyrirbæri eru hluti af viðleitni mannsins til að koma böndum á öfl náttúrunnar í okkar þágu. Kaos tilverunnar er stokkað upp og skarð hoggið í flæðið. Hver einasti punktur landsins hefur einkennandi samsetningu af vindáttum. Þessa samsetningu má tákna með mynd sem kallast vindrós og sýnir hvaða vindáttir eru algengastar á hverjum stað. Vindrósir og grunnteikningar flugvalla á Íslandi eru sjónrænt inntak tónverksins. Leikið er með dýnamík, kaos og sterka löngun mannsins til að hefja sig til flugs. Í verkinu könnum við aðstæður á flugvöllum landsins í gegnum flugvallateikningar Ólafs Pálssonar verkfræðings, afa tónskáldsins. Verkið er flutt af strengjakvartett. Frumflutt á Sígildum sunnudögum í Kaldalóni, Hörpu þann 11. febrúar 2024.